Að kalla hlutina réttum nöfnum

Ég snöggreiddist þegar ég sá frétt RÚV í morgun undir fyrirsögninni „Elon Musk virðist senda fasistakveðju“ [leturbreyting mín] enda má öllum vera ljóst hvað um er að ræða í myndskeiðinu sem birtist frá innsetningarathöfn Bandaríkjaforseta í gær. Stuttur hringur á internetinu sýnir að það er allra handa hvort fjölmiðlar fullyrða að um nasista/fasistakveðju sé að ræða eða hvort Musk sé leyft að njóta vafans, líkt og í frétt RÚV. Því vafans nýtur hann.

Í nýlegu svari við umræðunni neitar Musk ekki að um fasistakveðju sé að ræða en segir það „svoooo gamaldags að kalla alla Hitler." Gott og vel, er af hverju velur hann þá sjálfur að vitna til fortíðar með handabendingunum? Fyrirrennarar Musk í fasismanum eru auðvitað mýmargir og af nægu að taka fyrir þau sem vilja líkja náunganum saman við alræmda ofstækismenn. Fyrst og fremst er hann hjartalaust ómenni eins og allir fasistarnir sem á undan honum hafa komið. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Það sem stuðar mig við fyrirsögn RÚV er augljós óttinn við að kalla hlutina sínum réttu nöfnum - og skortur á skilningi um hversu mikilvægt það er á þeim tímum sem við lifum. Það er rosalegur titringur í gangi, en fréttamenn hafa ríka ábyrgð að standa í lappirnar gagnvart slíkum sviptingum og segja hlutina hreint út. Mér sýnist að fleiri og fleiri séu að hörfa inn í einhvers konar skel gagnvart þessum uppgangi últrahægrisins; viðskiptafólk, fréttafólk og almennir borgarar. Þetta er áhrifagirni af verstu sort.

Algóriþminn á Tiktok er mjög duglegur að senda mér fréttatengt efni. Á morgnana fæ ég varla annað en myndskeið frá hinum ýmsu fréttaveitum að segja hvað gerðist í Bandaríkjunum á meðan ég svaf ljúfum svefni á meginlandi Evrópu. Satt að segja er upplýsingamagnið svo mikið að ég velti fyrir mér í morgun að hætta á miðlinum og taka inn minna af ameríska harmleiknum. Freyr fær nánast engar fréttir á Tiktok og er því alveg laus við að sjá fasistakveðjur Musk sundurgreindar af sérfræðingum í marga klukkutíma í röð. Hann fær heldur ekki örmyndbandahrúgu af öllum illu forsetatilskipunum sem Trump undirritaði á fyrstu klukkustundunum í embætti. Megnið af hans fréttum koma matreiddar í gegnum íslensku miðlana, sem virðast ætla að stíga allt of varlega til jarðar eins og dæmin hjá RÚV sanna.

Ég hef töluverðar áhyggjur sjálf, og finn fyrir miklum áhyggjum hjá þeim hópum sem við getum skilgreint sem minnihlutahópa. Konur, queer og litað fólk. Auðvitað eru allir karlarnir í kringum mig andvígir þessari öfgafullu þróun, en áhyggjurnar virðast setjast öðruvísi hjá þeim. Þær liggjast ekki innan á líffærin.

Fyrir utan öll stóru atriðin eins og mannréttindi, hef ég áhyggjur af almenni prinsippleysi og öllu því fólki sem virðist finnast eðlilegt að kyssa vöndinn á þessum tímapunkti. Fólkið sem ætlar að stíga varlega til jarðar andspænis afli sem hyggst ekki fara varlega af stað í róttækar breytingar á alheimskerfunum. Það er svolítið eins og að hafa aftengt sjálfsbjargarviðleitnina sína að ætla að kurteisa sig í gegnum fasíska alræðistíma. Leggjast bara flatur gagnvart Trump og öllum vinum hans í öllum löndum heims - eða bjarga sér með því að taka jafnvel þátt í einhverjum mæli?

Það virðist fjöldi fólks ætla að spila pínu með. Gera lítið úr því sem er í gangi, eða sjá jafnvel tækifæri í stöðunni til að komast hærra. Sagan dæmir það fólk, sem hefur tekið þá afstöðu hart, eins og dæmin sanna. Ég hélt að allir vissu það.

Guardian gerði breytingu á ritstjórnarlegri stefnu sinni fyrir nokkrum árum síðan, og fór að kalla loftslagshamfarirnar sínu rétta nafni. Skömmu áður hafði BBC neyðst til að biðjast afsökunar á ritstjórnarstefnu sinni um loftslagshamfarir sem gerði afneitunarsinnum allt of hátt undir höfði í misskilinni viðleitni til að gæta jafnvægis í umræðu sem hreinlega á að byggja á staðreyndum frekar en skoðunum. Ég vitnaði oft til þessara tveggja atvika á gólfi Rásar 2 þegar umræðan um hlutleysi í umfjöllunum kom upp - því það sem gæti virkað sem 50/50 hlutleysi á blaði, getur fljótt orðið skakkt á kostnað sannleikans. Eitt af sterkustu vopnum últrahægrisins hefur verið að tortyggja sérfræðiþekkingu.

Mér sýnist að fréttastofa RÚV þurfi að setjast niður, eins og Guardian gerði á sínum tíma, og taka góða og hreinskipta umræðu um hvernig hún ætlar að tækla tímabilið sem framundan er.

Hvenær verða Trump og hans slekti til dæmis gengin of langt, að mati fréttastofu RÚV, að þau hætti að njóta vafans þegar þau vitna til fasista fortíðar? Það margborgar sig fyrir fréttastofuna að draga þá línu í sandinn strax svo allt starfsfólk gangi í takt þegar þau tímamót óhjákvæmilega verða. Annars er mikil hætta á því að mörkin færist lengra og lengra og lengra, eins og þau virðast nú þegar hafa gert að einhverju leyti.

Previous
Previous

Sjónin mín: Tilfinningapistill

Next
Next

Jólapæling um sjálfstraust og sjaríalög